Fréttir
  • Farið yfir veturinn í vetrarþjónustunni
  • Farið yfir veturinn í vetrarþjónustunni - Einar Sveinbjörnsson
  • Farið yfir veturinn í vetrarþjónustunni
  • Farið yfir veturinn í vetrarþjónustunni
  • Farið yfir veturinn í vetrarþjónustunni

Gríðarlega erfiður vetur í vetrarþjónustu

Farið nærri fimm sinnum til tunglsins á landinu öllu

21.4.2015

Snjómoksturstæki í vinnu fyrir Vegagerðina fóru vegalengd í vetur sem jafngildir því að hafa farið 4,4 sinnum til tunglsins. Veturinn var einn sá erfiðasti í vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni og þurfti að sinna þjónustu mokstri eða hálkuvörnum upp á hvern einasta dag. Venjulega vetur koma dagar þar sem ekki þarf að senda út bíl nema í eftirlit. En því var ekki að heilsa í vetur.

Áætla má að á  landinu öllu hafi   snjómoksturstækin ekið um 1.690.000 km, og notað 19.400 tonn af salti (salt í pækli og sandi meðtalið), 6.000 rúmmetrar af pækli og 13.000 tonn af sandi. 

Á svæði Selfoss voru þjónustudagarnir 163 eða 77 prósent en var 69 prósent í fyrravetur. Í Hafnarfirði voru dagarnir 166 þ.e.a.s. það var vetrarþjónusta 85 prósent af tímanum en ekki nema 72 prósent fyrir ári síðan. Á landinu öllu voru þjónustudagarnir 212 sem eru allir dagarnir eða 100 prósent. Það þurfti því að þjónusta vegakerfið upp á hvern einasta dag, einhversstaðar sem er óvenjuleg staða.

Kostnaðurinn við þetta var að meðaltali um 9,2 milljónir króna við snjómoksturinn einan. Þannig að segja má að kostnaðurinn hafi verið tvær rúmgóðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í hverri einustu viku í allan vetur.

Þetta er meðaltalskostnaðurinn á dag, en erfiðustu dagana í vetur hefur kostnaðurinn á dag við snjómoksturinn á landinu öllu farið upp 22 – 25 milljónir króna.

Farið var yfir veturinn í Hafnarfirði í síðustu viku með verktökum og starfsmönnum Vegagerðarinnar. Kom fram hjá Einari Sveinbiörnssyni veðurfræðingi að veturinn hefði verið afbrigðilegur og hefði staðið nánast linnulaust frá 30. Nóvember til 14. Apríl. Þetta hafi verið kaldasti og á sama tíma vindasamasti veturinn frá aldamótum. Mjög mikið um suðvestanáttir sem eru erfiðar á þessu svæði, t.d. á Reykjanesbrautinni enda kom til þess að henni þurfti að loka nokkrum sinnum í vetur. Það er afar óvenjulegt að kulda og vindamet sé slegið saman. 

Skúli Þórðarson hjá Vegagerðinni fór yfir þetta líka og benti á að vindur hafi verið meiri en 10 m/s í 31 prósent af tímanum í vetur en aðeins í 22 prósent tímans í fyrravetur. Hann benti á að 50 sinnum hefði fjallvegum og Reykjanesbrautinni verið lokað í vetur sem er miklu meira en áður hefur verið. Um er að ræða Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði auk Reykjanesbrautarinnar. 

Ástæðan er reyndar ekki bara meiri og erfiðari veður heldur einnig annað verklag sem hefur gefist mjög vel. Verklagið felst í því að loka fyrr með mönnuðum lokunarslám og freista þess þannig að færri vegfarendur lendi í vandræðum upp á heiðum og auðveldara og fljótlegra verði að opna fjallvegi eftir lokanir.

Verktakar á svæðinu í vetur voru Malbikunarstöðin Höfði, Hilmar Ólafsson, Borgarverk, IJ landstak, Íslenska gámafélagið, Kolur og Þjótandi og munu þeir halda áfram samkvæmt útboði næstu vetur. Þá verða nokkrar breytingar til að auka þjónustuna og í hagræðingarskyni. Til að mynda verða snjómoksturstæki sum með hliðarvængi og taka þannig meira pláss á veginum, þau verða notuð þar sem eru tvær akreinar í hvora átt. 

Rétt er að benda vegfarendum á það að fara varlega við þær aðstæður og að aka ekki fram úr snjóruðningstækjum nema þau séu alfarið á annarri akrein og/eða vegfarendum er gefið skýrt til kynna að framúrakstur sé í lagi.

Lokanir síðustu vetur: 

  2010-11 2011-12 2012-13 2013-14 2014-15
Hellisheiði 1 7 1 3-5 20-21
Mosfellsheiði 2 7   6 11
Vesturlandsvegur um Kjalarnes   2 3 1 7
Vesturlandsvegur um Hafnarfjall       1 8
Reykjanesbraut     1  

 

Verktakar í vetrarþjónustunni og vegagerðarfólk